Hreinsunarátak í Reykjanesbæ
Öll eigum við að láta okkur umhverfið varða. Samstarfsverkefnið Hreinsunarátak hefur skilað Reykjanesbæ sem snyrtilegu bæjarfélagi. En betur má ef duga skal og við ætlum sannarlega að sameinast enn og aftur um að gera enn betur nú og hvetjum ykkur öll í samstarf um hreinsun á lóðum og snyrtingu á umhverfi og mannvirkjum sem heild. Við munum verða við ykkar óskum eins og kostur er til að góður árangur náist.
Fyrirhugað er að næstu vikur verði lögð áhersla á iðnaðarsvæðin. Ekki er lengur ásættanlegt fyrir fyrirtæki og einstaklinga að safna brotajárni, s.s. bílflökum, gámum eða öðrum úrgangi á lóðir. Við munum bjóða aðstoð við að fjarlægja af lóðum því sem henda má og jafnvel aðstoð við tiltekt. Starfsfólk Umhverfis- og skipulagssviðs (USK) svarar óskum ykkar um slíkt samstarf eins fljótt og mögulegt er og eðli málsins samkvæmt skipuleggjum við starfið þannig að hægt sé að sinna sem flestum verkefnum sem til falla á sama svæði með hagkvæmni að leiðarljósi. Einstaklingar og fyrirtæki mega eiga von á heimsókn frá fulltrúum USK þar sem farið verður yfir ástand og nýtingu viðkomandi lóða þar sem leitast verður við að finna hagkvæmar og hentugar lausnir.
Við bendum á Hringrás, www.hringras.is sem er með fullkomna móttökustöð fyrir brotajárn á athafnasvæði Hringrásar við Berghólabraut 27 í Helguvík.
Sorpeyðingarstöð Suðurnesja eða „Kalka“ www.kalka.is sem staðsett er að Berghólabraut 7 í Helguvík, þjónar íbúum og rekstraraðilum á Suðurnesjum. Auk þess að brenna almennan rekstrar- og heimilisúrgang getur stöðin brennt sértækum úrgangi eins og spilliefnum og sóttmenguðum úrgangi.
Við hjá Umhverfis- og skipulagssviði viljum gjarnan eiga gott samstarf við einstaklinga og fyrirtæki um þessi mál og hvetjum til samstarfs með það að sameiginlegu markmiði að skapa betri ásýnd og virðisauka lóða og mannvirkja í Reykjanesbæ.
Frekari upplýsingar má nálgast hjá Umhverfis- og skipulagssviði í síma 421-6700 eða á netfangið [email protected]
(Tilkynning frá Reykjanesbæ)