Hreinsun Rockville svæðisins tefst vegna fjárhagserfiðleika Varnarliðsins
Ekki hefur enn verið hafist handa við að hreinsa svæðið í kringum Rockville á Miðnesheiði og segir Matthías G. Pálsson sendiráðsritari á Varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins að helsta ástæðan sé að Varnarliðið sé í peningakröggum. Um hálft ár er síðan meðferðarheimilið Byrgið fór af svæðinu og vöktu þær fréttir mikla athygli þar sem Byrgið hafði lagt tugmilljónir króna í að bæta aðstöðu á svæðinu.
Að sögn Matthíasar er krafa íslenskra stjórnvalda að byggingar á svæðinu verði rýmdar. Matthías segir að Varnarliðið leiti leiða til að fá fjármagn til verksins, en að svæðið sé stórt sem þurfi að hreinsa og að það sé kostnaðarsamt. „Það eru einnig uppi kröfur um að svæðið verði hreinsað í samræmi við umhverfissjónarmið og gildandi lög og reglur, með hliðsjón af hættulegum efnum sem þarna geta verið. Stjórnvöld halda uppi stöðugri pressu á Varnarliðið um að hreinsa svæðið, en eins og allir vita er Varnarliðið í peningakröggum,“ sagði Matthías í samtali við Víkurfréttir.
Meirihluti þeirra bygginga sem á svæðinu standa hafa verið lagðar í rúst og hefur heilu bílförmunum af allskyns drasli verið stolið. Fyrir stuttu var veginum að Rockville svæðinu lokað og þungum steypustólpum komið fyrir utan vegar.
VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Búið er að loka veginum að Rockville. Eins og sést á myndunum hafa stórfelld skemmdarverk verið unnin á byggingum á svæðinu.