Hreinsuðu 18 tonn af rusli
Hreinsuð voru 18 tonn af rusli á vegum Bláa hersins á síðasta ári. Meðal verkefna var að hreinsa Sandvíkina tvisvar sinnum og fjarlægja 680 kíló af rusli. Á Ásbrú voru þrjú hreinsunarverkefni á vegum Bláa hersins á síðasta ári og rúmlega tonn af rusli fjarlægt þaðan. Þá var haldinn árlegur hreinsunardagur við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli með starfsmönnum Isavia og 120 iðkendum íþróttafélaga á Suðurnesjum og foreldrum þeirra þar sem hreinsuð voru 2,6 tonn af rusli.
Tómas Knútsson, forsvarsmaður Bláa hersins, hefur verið óþreytandi við að skipuleggja hreinsunarverkefni og sömuleiðis við að vekja athygli á rusli í sjónum og við strendur landsins. Tómas segir mikið streð að safna styrkjum til starfsins og sjálfur hefur hann unnið mikið hreinsunarstarf í sjálfboðavinnu í gegnum tíðina. Líkt og greint var frá í Víkurfréttum síðasta haust stefnir hann að því koma starfinu í annað horf og fá fólk í stjórn Bláa hersins og finna öfluga bakhjarla til framtíðar. Hann segir þau áform ganga ágætlega, það sé allt á réttri leið en að tíma taki að ná því markmiði.
Ruslið sem týnt var á vegum Bláa hersins á síðasta ári.