Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hreinsið upp eftir hundana ykkar!
Miðvikudagur 28. október 2009 kl. 09:10

Hreinsið upp eftir hundana ykkar!

Hundaskítur á göngustígum Reykjanesbæjar er orðinn að hvimleiðu vandamáli. Sem kunnugt er hefur bæjarfélagið undanfarin ár lagt áherslu á gerð göngustíga t.d. meðfram allri sjávarsíðunni og hafa stígarnir verið afar vinsælir meðal bæjarbúa sem nýta þá óspart sér til ánægju og heilusbótar.  Hundaeign hefur á sama tíma aukist mikið og því miður virðast alltof margir hundaeigendur ekki hirða upp eftir hundana sína.

„Við fáum mikið af kvörtunum frá bæjarbúum en aðallega á vorin þegar snjóa leysir. Þá rignir yfir okkur fyrirspurnum og kvörtunum út af þessum málum. Við höfum verið með starfsmann úti á örkinni að hreinsa þetta upp.  Þetta er á vissan hátt barátta við vindmyllur  en við náum yfirleitt í skottið á okkur um mitt sumar,“ segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar inntur eftir því hvort mikið væri kvartað yfir þessu. Þess má geta að ófáir lesendur hafa haft samband við VF af sömu ástæðu þannig að kvartanir berast ekki eingöngu til bæjaryfirvalda.

En er eitthvað til ráða?

„Við vorum með mikinn áróður á íbúafundunum í vor og sendum nokkrar greinar frá okkur varðandi þessi mál. Ný lögreglusamþykkt er í smíðum og þar er vissulega tekið á þessum málum. En besta vörnin er áróður og fræðsla meðal hundaeigenda, því eins og við vitum þá eru þetta nokkrir hundaeigendur sem skemma fyrir heildinni. Einnig er mjög mikilvægt að fá fólk til að skrá hundana sína, því með því fylgir fræðsla,“ segir Gunnlaugur.

Þess má geta að hundaeigendur sem verða uppvísir að því að skilja eftir hundaskít á almannafæri geta átt von á sektarviðurlögum samkvæmt nýju lögreglusamþykktinni.
---

VFmynd/elg – Er þetta það sem við viljum hafa á göngstígum bæjarins? Svarið er NEI – hreinsið upp eftir hundana ykkar!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024