Hreinsaði geitungabúið sjálfur
Geitungar hafa svo sannarlega gert sig heimakomna í garðinum hjá Guðmundi Sigurðssyni og Kristínu Jónasdóttur í Sandgerði en á rúmri viku hefur tveimur geitungabúum verið eytt í garðinum. Í fyrra skiptið var búi eytt af meindýraeyði en í seinna skiptið greip Guðmundur til sinna ráða og eyddi búinu. Hann sagði það lítið mál.
„Það er hægt að fá gott skordýraeitur í Esso en ræsissprey eða bremsudiskahreinsir er mjög góður sem eitur fyrir geitungana,“ segir Guðmundur en hann notaði skordýraeitur til að drepa geitungana.
„Ég sprautaði yfir búið þegar það var farið að rökkva og beið með að hreinsa það burt þar til daginn eftir. Kvöldið sem ég úðaði eitrinu yfir var mikið líf í kringum búið en um morguninn var engin hreyfing. Það var því lítið mál að hreinsa búið og koma því í poka.“
Guðmundur varð ekki fyrir neinu ónæði þegar hann tók búið og hann segir að geitungarnir hafi látið lítið fyrir sér fara. „Það er ekki fyrr en í ágúst sem að þeir verða kolvitlausir. Ég vildi bara eyða þessu strax svo þeir færu ekki að ónáða fjölskylduna,“ segir Guðmundur en honum er meinilla við geitunga. „Ég var stunginn í lærið þegar ég var erlendis og lærið bólgnaði upp. Það er ekki þægilegt að vera stunginn.“
Að sögn Guðmundar er gott fyrir fólk að fylgjast með umferð geitunganna í garðinum og finna þannig búið. „Þær eru uppteknar af því að fljúga alltaf sömu leiðina og maður finnur búið þannig.“