Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Hreiður á grilli fuðraði upp
Sunnudagur 22. maí 2011 kl. 02:40

Hreiður á grilli fuðraði upp

Starrar í Sandgerði virðast hafa dálæti af því að gera sér hreiður á grillum heimamanna. Síðustu tvo fimmtudaga höfum við greint frá hreiðurgerð og síðan ungum sem skriðu úr eggjum á grilli í Sandgerði. Þeir ungar virðast ætla að dafna vel, samkvæmt síðustu upplýsingum Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Ekki fór eins vel fyrir hreiðurgerð á öðru grilli í Sandgerði í gærdag. Það grill er öllu nýrra en það sem verið hefur í fréttum síðustu vikur. Undir kvöld í gær ætlaði heimilisfaðirinn að skella steik á grillið. Það var því skrúfað frá gasinu og síðan þrýst á takka með þeim afleiðingum að neisti kveikti í gasinu. Með það sama gaus upp lykt af sinubruna og brennandi lyngi.


„Hva... Er verið að brenna sinu?,“ sagði grillmeistarinn en tók þá eftir að mikinn reyk lagði frá grillinu. Það var þá sem honum varð ljóst að starri hafði gert sér hreiður á grillinu og hreiðrið hafði fuðrað upp. Til allrar lukku fyrir samvisku grillmeistarans hafði starrinn ekki orpið í hreiðrið og því voru ekki spæld egg eða steiktir ungar á grillinu þegar það var opnað.


Starra-parið verður að finna sér annan hreiðurstað, því það á að grilla reglulega á grillinu næstu daga. Myndin hér að ofan var tekin eftir að ljóst var að hreiðrið hafði fuðrað upp. Að neðan má hins vegar sjá ungana og eggin sem eru á öðru grilli í Sandgerði. Þar gengur uppeldið samkvæmt áætlun og lítil hætta á að kveikt verði undir því grilli fyrr en ungarnir eru farnir.