Hraunrennsli ógnar slóða viðbragðsaðila
Gosvirknin í eldstöðinni í Meradölum er svipuð og hún hefur verið, en hún hefur þrengst inn á miðju sprungunnar. Aðeins er nú um að ræða litla eftirskjálfta á svæðinu. Hraunjaðarinn í Meradölum við skarð þar sem talið er líklegt að geti flætt yfir, er nú hærri en skarðið og lítið þarf til að þar flæði yfir. Það setur í hættu m.a. slóða sem viðbragðsaðilar hafa notað.
Viðbragð á gossvæðinu í Meradölum gengur ágætlega, segir í stöðuskýrslu samhæfingarmiðstöðvar almannavarna, sem gefin var út í dag. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum lokaði fyrir aðgang að svæðinu vegna veðurs frá kl. 05.00 á sunnudagsmorgni og þar til í morgun. Þær leiðir sem nýttar voru í gær við lokanir virkuðu vel og komu að mestu í veg fyrir að fólk legði í gönguna. Veðurspá gerir ráð fyrir hægum vindi og skúrum, en möguleiki er á að þoka verði á svæðinu síðar í kvöld og nótt. Á fimmtudagskvöld og aðfaranótt föstudags er gert ráð fyrir töluverðum vindi og rigningu á svæðinu. Búist er við því að á föstudag birti til.
Lagt verður í að bæta gönguleið A enn frekar í dag og næstu daga, þar er sérstaklega um að ræða tvær brekkur ofarlega á leiðinni þar sem hættara er við slysum. Gott samstarf og samráð er á milli allra sem koma að lagfæringunum, þ.á m. landeigenda.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur bannað börnum yngri en 12 ára aðgang að gosstöðvunum, en börnum er áfram velkomið að ganga inn að hrauninu í Nátthaga, enda er þar um sléttlendi og eldra hraun að ræða auk þess sem gasmengun er í lágmarki.
Í spilaranum hér að neðan er beint streymi frá einni af vefmyndavélum mbl.is þar sem fylgst er með eldstöðinni og hraunrennsli.