Hraunið við Svartsengi stopp
Skjálftavirknin við Svartsengi og Sundhnúk er mjög lítil og hafa fáir smáskjálftar mælst undanfarna daga. Hraunið sem gekk í átt að norðanverðu Sýlingarfelli hélt áfram að renna mjög hægt frá því að gosinu lauk 22. júní og er nú alveg hætt að hreyfast, segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Hópur frá Náttúrufræðistofnun og Landmælingum Íslands hefur unnið úr gögnum sem sérfræðingar frá Eflu, Verkís og Svarmi söfnuðu í drónaflugi yfir gosstöðvarnar 24. júní. Gögnin sýna að hraunið er nú 9,3 km2 að flatarmáli og rúmmálið um 45 milljónir m3.
Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt hraunbreiðunnar sem hefur myndast í eldgosinu sem hófst 29. maí. Kortið er afurð samvinnu margra aðila en er byggt á mælingum Verkís, Eflu og Svarma frá 24. júní. Á kortinu sést hvar hraun hefur safnast í hrauntjörn suðaustan við Sýlingarfell (rauðleit svæði) og hraunstraumurinn sem rennur þaðan norður fyrir Sýlingarfell. Gráleit svæði sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.