Hraunið á um tvo kílómetra í Snorrastaðatjarnir
Hraunjaðarinn frá eldgosinu norðaustur af Stóra-Skógfelli hefur færst fram um 170 metra síðasta sólarhring. Aðeins hefur hægt á hraunrennslinu en sólarhringinn á undan var hraunjaðarinn að færast fram um 250 til 280 metra.
Gro Birkefeldt Pedersen, sérfræðingur í eldfjallafræðum hjá Veðurstofu Íslands, hefur verið að fylgjast með hraunrennsli frá eldstöðinni. Hún segir í samtali við Víkurfréttir að nú sé hrauntunga í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Snorrastaðatjörnum. Þær eru á útivistarsvæði nærri Háabjalla í Sveitarfélaginu Vogum.
Samkvæmt mælingum frá því snemma í morgun er hraunjaðarinn um 3,6 kílómetra frá Reykjanesbraut og 3,2 kílómetra frá Suðurnesjalínu.
Á leiðinni að þessum mannvirkjum eru nokkrar gjár sem hraunið þarf að fylla áður en það rennur áfram í átt að innviðum.