Fréttir

Hraunflæðilíkön draga upp dökka mynd fyrir innviði og mannvirki
Líkanið að ofan gerir ráð fyrir eldgosi milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells, líkt og urðu og 18. desember 2023 og 8. febrúar 2024.
Sunnudagur 3. mars 2024 kl. 08:22

Hraunflæðilíkön draga upp dökka mynd fyrir innviði og mannvirki

Tvö hraunflæðilíkön sem Veðurstofa Íslands gaf út í vikunni gera bæði ráð fyrir eldgosi með framleiðni upp á 600 rúmmetra á sekúndu í sex klukkustundir. Líkönin gera ráð fyrir stöðugu hraunflæði upp á 600m3/s og sýnir dreifingu hraunbreiðunnar eftir 6 klukkustundir. Annað líkanið gerir ráð fyrir eldgosi milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells, líkt og urðu og 18. desember 2023 og 8. febrúar 2024. Hitt líkanið gerir ráð fyrir eldgosi við Hagafell, líkt og varð 14. janúar 2024.

Líkanið sem gerir ráð fyrir eldgosi við Hagafell, líkt og 14. janúar 2024, sýnir hraunrennsli yfir vestasta hluta byggðarinnar í Grindavík.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Líkönin sem kynnt voru sýna áætlað hraunflæði út frá mismunandi staðsetningum á gosopnun á Sundhnúksgígaröðinni. Í þessum sviðsmyndum er gert ráð fyrir 800 metra langri gossprungu. Sprungur eru merktar með svörtu striki. Veðurstofan tekur fram að hegðun hraunbreiðunnar getur verið mjög ólík og ræðst af því hvar nákvæmlega sprunga opnast í landslaginu. Lítil tilfærsla á gossprungum getur breitt hraunflæði mikið.

Það er áfram mat vísindamanna að ef til eldgoss kemur, er líklegast að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina og að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp til yfirborðs, koma fram í skyndilegri, staðbundinni og ákafri smáskjálftavirkni. Ef horft er til fyrri eldgosa á svæðinu gæti eldgos hafist með litlum fyrirvara, innan við 30 mínútur, allt eftir því hvar á Sundhnúksgígaröðinni kvika kemur upp.

Bæði líkönin sýna að verulegt tjón getur orðið á innviðum. Gangi líkanið fyrir Svartsengi eftir mun hraun ná Njarðvíkuræðinni sem flytur heitt vatn til Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Sveitarfélagsins Voga. Gjósi við Hagafell samkvæmt hraunlæðilíkaninu getur hraunstraumurinn ógnað vestustu byggðinni í Grindavík.

Nánar má lesa um líkönin á vef Víkurfrétta.