Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hraun rennur til suðurs frá eldstöðinni
Yfirlitsmynd yfir gosstöðvarnar tekin í flugi í morgun. Þar sjást öll virku gosopin og hraunstraumur frá þeim til suðurs. Í bakgrunni til vinstri má sjá Grindavíkurbæ og til hægri sést í Svartsengi (Ljósmynd: Birgir V. Óskarsson - Náttúrufræðistofnun
Miðvikudagur 20. mars 2024 kl. 13:32

Hraun rennur til suðurs frá eldstöðinni

Virkni eldgossins virðist nokkuð stöðug og áfram eru virk gosop á sömu stöðum og í gær. Hraun rennur frá gígunum í suður ofan á hrauni sem rann á fyrstu dögum gossins. Lítil sem engin hreyfing hefur mælst á hraunjöðrum nærri Suðurstrandarvegi og Svartsengi. Jarðskjálftavirkni síðan eldgosið hófst á laugardagskvöld hefur verið minniháttar, segir í frétt frá Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin er vaxandi suðaustanátt í dag, 13-20 m/s síðdegis, en lægir undir kvöld. Þá berst gasmengun til norðvesturs, og gæti hennar orðið vart í Reykjanesbæ og nálægum byggðarlögum. Gasdreifingarspá má finna hér.  Þann 17. mars var útstreymi SO2 frá eldgosinu mælt allt að 50 kg/s, en frumniðurstöður nýrri mælinga benda til þess að dregið hafi verulega úr gasútstreyminu síðan þá.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á bylgjuvíxlmynd sem birt var í gær, sáust skýr merki um landris í Svartsengi frá 17. til 18. mars. GPS mælingar frá 18. mars sýna að mögulega dragi úr landrisinu. Það gæti verið vegna þess að nú streymir kvika uppá yfirborð í Sundhnúksgígaröðinni og safnast því ekki saman undir Svartsengi. Þróun eldgossins og aflögunarmælingar næstu daga munu leiða það í ljós hvort jafnvægi komist á innstreymi kviku undir Svartsengi og hraunflæði á yfirborði í Sundhnúksgígaröðinni.

Í morgun fóru sérfræðingar Landmælinga Íslands og Náttúrufræðistofnunar í loftmyndaflug yfir gosstöðvarnar. Út frá þeim myndum er hægt að áætla stærð hraunbreiðunnar og meðal hraunflæði  frá eldgosinu. Þær niðurstöður verða birtar um leið og unnið hefur verið úr gögnunum.

Eldgos20032024

Yfirlitsmynd yfir gosstöðvarnar tekin í flugi í morgun. Þar sjást öll virku gosopin og hraunstraumur frá þeim til suðurs. Í bakgrunni til vinstri má sjá Grindavíkurbæ og til hægri sést í Svartsengi (Ljósmynd: Birgir V. Óskarsson - Náttúrufræðistofnun)

Uppfært hættumat

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat í ljósi nýjustu gagna. Nýtt hættumat tekur gildi í dag, miðvikudaginn 20. mars og gildir til 22. mars að öllu óbreyttu. Svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin), þar sem eldgos er enn í gangi, er óbreytt og hættan talin mjög mikil. Hætta á svæði 1 (Svartsengi) er nú metin töluverð en var áður metin mikil. Hætta á svæði 4 (Grindavík) er áfram metin mikil þar sem hætta vegna jarðfalls ofan í sprungu, sprunguhreyfinga og hraunflæðis er talin mikil. Á svæði 3 (Sundhnúksgígaröðinni) er hætta vegna gasmengunar talin mjög mikil en á öllum öðrum svæðum er nú metin töluverð hætta á gasmengun en var áður mikil. Þessi breyting er vegna minna gasútstreymis frá eldgosinu en í upphafi. Hætta vegna gasmengunar og gjósku er einnig metin út frá veður- og dreifingarspá næstu daga sem hefur áhrif á útbreiðslu þeirra. 

Haettusvaedi_VI_20mars_2024

(Smellið á kortið til að sjá það stærra)