Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Hræddur um að áfengissala kæmi illa út
    Verslun á Suðurnesjum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
  • Hræddur um að áfengissala kæmi illa út
Þriðjudagur 7. júlí 2015 kl. 16:15

Hræddur um að áfengissala kæmi illa út

Verslunareigendur fagna könnun Samsuð á tóbakssölu til barna.

„Það er ekki ætlunin að klekkja á neinum með þessari könnun. Hún er fyrst og fremst til að efla vitund og umræðu um það að krökkum er alltof oft selt tóbak í verslunum á Suðurnesjum,“ segir Hafþór B. Birgisson, tómstunda-, og forvarnarfulltrúi í Reykjanesbæ og einn fulltrúa Samsuð (Samtaka félagsmiðstöðva á Suðurnesjum) sem stóðu fyrir árlegri könnun um sölu á sígarettum og munntóbaki til ungmenna yngri en 18 ára, í lok maí. Niðurstöðurnar voru opinberaðar fyrr í vikunni. 33% verslana seldu þeim sígarettur og 37% verslana munntóbak.

Samþykki söluaðila og forráðamanna

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Könnunin fór fram með vitund og í samráði við aðila sem selja tóbak á Suðurnesjum. „Þeir fengu sent bréf þar sem tilgreint var að könnun yrði gerð, á næstu mánuðum, hjá þeim sem kærðu sig um slíkt. Það hafði enginn á móti því og verslunareigendur fögnuðu framtakinu, því það þjónar góðum tilgangi,“ segir Hafþór og bætir við að um sé að ræða samstarfsverkefni þar sem velferð ungmenna sé sett í forgang. Þá hafi einnig fengist samþykki forráðamanna ungmennanna. 

Þurfa að gera eitthvað í sínum málum

Unglingar allt niður í 15 ára voru sendir inn á sölustaðina og ef þeir fengu að kaupa sígarettur og/eða munntóbak var farið aftur með þeim inn til að fá endurgreiðslu og starfsmanni gerð grein fyrir því hvað hann gerði rangt. „Við fórum að sjálfsögðu líka inn og létum vita þegar afgreiðslufólk stóð sig vel,“ segir Hafþór. Spurður um hvort aðferðin sé lögleg segir Hafþór hana vera á gráu svæði en sé, eins og áður segir, með fullri vitund þeirra sem selja tóbakið. „Það er allavega klárt að þeir þurfa að gera eitthvað í sínum málum. Vínbúðirnar á Suðurnesjum koma vel út í svipuðum könnunum en ég er hræddur um að áfengissala kæmi illa út í svona verslunum ef eftirlitið er ekki betra en þetta,“ segir Hafþór.