Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Hraðbankinn í Sandgerði bilaður síðan í apríl
Í svari bankans segir að töfin hafi komið sér illa fyrir íbúa Sandgerðisbæjar en að brátt verði aftur hraðbankaþjónusta í bænum.
Föstudagur 15. júlí 2016 kl. 11:30

Hraðbankinn í Sandgerði bilaður síðan í apríl

Einn hraðbanki er í Sandgerði og hefur hann verið bilaður síðan í lok apríl. Hraðbankinn er á vegum Landsbankans sem áður rak útibú í bæjarfélaginu í mörg ár en því var lokað haustið 2014. Sandgerðingar eru því margir hverjir orðnir langþreyttir á biðinni eftir að hraðbankinn verði lagfærður og hafa Víkurfréttum borist ábendingar þess efnis.

Að sögn Sigrúnar Árnadóttur, bæjarstjóra í Sandgerði, hafa bæjaryfirvöld látið sig málið varða og þrýst á Landsbankann að hafa hraðbankann aðgengilegan. „Okkur hefur þótt taka allt of langan tíma að setja upp hér nýjan hraðbanka og íbúar hafa kvartað vegna þessa,“ segir hún.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum eru margar ástæður fyrir því að ekki er búið að koma hraðbankanum í Sandgerði í lag. Ekki er hægt að laga þann sem fyrir er og var því fjárfest í nýju tæki sem nýkomið er til landsins. Þá hefur verið ákveðið að færa hraðbankann í nýtt og hentugra húsnæði en þar þarf að gera breytingar svo að aðgengi verði að hraðbankanum allan sólarhringinn.

Í svari bankans segir að töfin hafi komið sér illa fyrir alla íbúa Sandgerðisbæjar og hefur bankinn fullan skilning á óánægju viðskiptavina vegna málsins. „Því miður hefur ekki tekist að klára málið eins fljótt og væntingar stóðu til en nú hyllir undir lokin á verkefninu,“ segir jafnframt í svari bankans.

Ekki er hægt að laga hraðbankann sem fyrir er svo fjárfest hefur verið í nýju tæki sem sett verður upp á öðrum stað í Sandgerði.