Hraðamörk verði óbreytt á Reykjanesbraut
Vegamálastjóri fellst ekki á tillögur Samgöngufélagsins um hækkun hraðamarka á Reykjanesbraut úr 90 í 100 km hraða á klukkustund.
Rök Vegmálastjóra eru þau að óvissu gæti um hversu mikla þjónustu verði unnt að halda úti á Reykjanesbraut á næstu misserum, kostnaður við þjónustuna hafi vaxið mikið undanfarið og þá einkum vetrarþjónustuna. Ekki sé útlit fyrir aukin fjárframlög til þess.
Samgöngufélagið bendir á að með þessum rökum ætti hámarkshraði líklega hvergi að vera hærri en 80 km á klst. á þeim þjóðvegum landsins sem ekki eru með tvöfalda akstursstefnu í hvora átt en ekki 90 km eins og nú er og víða ekki nema 60 til 70 km.
Þá er á það bent að í einhverjum nágrannalandanna eru hraðamörk stundum höfð hærri á sumrin en vetrum og jafnvel notast við ljósaskilti til að laga heimiluð hraðamörk að aðstæðum hverju sinni. „Loks skal vakin athygli á að ljósrit þessa erindis var sent sveitarfélögum sem land eiga að Reykjanesbraut og hafa engin viðbrögð borist frá þeim. Af hálfu Samgöngufélagins hefur enn ekki verið ákveðið hvort þetta verði látnar vera lyktir málsins,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
---
VFmynd/pket. - Á Reykjanesbraut.