Hraðaksturinn kostaði 230 þúsund
	Tuttugu ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur um helgina í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Sá sem hraðast ók mældist á 152 km hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund. Þess ökumanns  bíður 230 þúsund króna sekt, svipting ökuleyfis í tvo mánuði og þrír  refsipunktar í ökuferilsskrá.  Þrír til viðbótar mældust á yfir 130 km hraða en aðrir sem kærðir voru óku heldur hægar.
	Þá hafði lögregla afskipti af tveimur piltum sem óku greitt á mótorkrosshjólum um götur í umdæminu. Lögregla ræddi við aðstandendur þeirra svo og piltana og leiddi þeim fyrir sjónir að svona háttarlag væri ekki liðið.
	Enn fremur var ungur ökumaður staðinn að því að spóla inni í hringtorgi með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði upp á torginu. Rætt var við piltinn sem og móður hans sem gert var viðvart um hegðun hans í umferðinni.
				
	
				

 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				