Hótelið rekst ekki á áform um stækkun flugvallarins
- Fjöldi fólks fylgdist með þegar fyrsta skóflustungan var tekin að flugvallarhóteli skammt frá Keflavíkurflugvelli
Nýtt 150 herbergja Courtyard flugvallarhótel Marriott keðjunnar mun ekki þrengja að framtíðar stækkunarmöguleikum flugvallarins þar sem það rís á lóð sem liggur utan við mörk yfirráðasvæðis Isavia. Fram kom við fyrstu skóflustunguna síðdegis í dag að aðstandendur framkvæmdanna hyggi á uppbyggingu enn frekari þjónustu við flugvöllinn í kjölfar opnunar hótelsins. Á lóðinni, sem gefið hefur verið nafnið Aðaltorg, kemur einnig til greina að opna matvöruverslun sem verði opin allan sólarhringinn.
Þegar er komin þar ÓB eldsneytisstöð á vegum Olís og þá hafa bílaleigur, sem eru með starfsemi á flugvellinum, verið í óða önn að koma sér fyrir á nærliggjandi lóðum. Þar hafa þær fengið úthlutað meira landrými til að geyma og afhenda þúsundir bílaleigubíla sem ferðamenn notast við á ferðum sínum um landið. Gert er ráð fyrir því að farþegar sem gisti á hótelinu eða þurfi að sækja bílaleigubíl ferðist í framtíðinni með sérstökum gjaldfrjálsum skutlum sem verði í áætlunarakstri frá flugstöðinni, en ferðin tekur á bilinu 2-4 mínútur. Slíkar skutlur eru algeng sjón við erlenda flugvelli.
Það var Rósa Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Álftavíkur sem er leiðandi fjárfestir í verkefninu, sem tók fyrstu skóflustunguna með stórri beltagröfu síðdegis í dag. Gröfturinn fór fram undir vökulum augum starfsmanna Íslenskra aðalverktaka sem hefjast handa við byggingaframkvæmdir strax á morgun. Meðal viðstaddra við skóflustunguna í dag voru sveitarstjórnarmenn í Reykjanesbæ og nokkrir þingmenn Suðurkjördæmis. Lýstu þeir mikilli ánægju með nýja flugvallarhótelið, en um milljarða framkvæmdir er að ræða. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, sagði þarna vera um mikilvægan áfanga að ræða. Byggingaraðili hótelsins, Aðaltorg ehf. í Reykjanesbæ, á alls byggingarétt upp á tæpa 25.000 fm á lóðinni og sér fyrirtækið fyrir sér að þar muni byggjast upp fjölbreytt stoðþjónusta við flugvöllinn, ferðafólk, áhafnir flugfélaga og annað starfsfólk. Áfram sé gert ráð fyrir vexti í fjölda farþega sem fara um völlinn.
Uppbygging þjónustu komi til með að styrkja Reykjanesið sem ferðamannastað
Reykjanesið hefur ekki farið varhluta af þeirri aukningu sem verið hefur í ferðamennsku hér á landi og hefur fjöldi gistinátta á svæðinu margfaldast. Áður fyrr var úrval afþreyingar takmarkað í næsta nágrenni við flugvöllinn. Úr því hefur þó verið bætt hægt og bítandi á síðustu árum og hafa aðstandendur Aðaltorgs komið að markaðssetningu svokallaðra „Blue Diamond“ ferða en í þeim gefst jafnt tengifarþegum og öðrum ferðamönnum sem stoppa stutt við á landinu tækifæri til að skoða helstu náttúruperlur Reykjanesskagans í skipulagðri rútuferð og er þá komið við hjá Gunnuhver, Valahnúk, Reykjanesvita, Kleifarvatni, Krísuvík og Bláa lóninu svo fátt eitt sé nefnt.
Rósa Ingvarsdóttir, framkvæmdarstjóri Álftavíkur tekur fyrstu skólfustunguna fyrir nýtt 150 herbergja Marriott hótel í Reykjanesbæ.
Rannveig Jónína, blaðamaður Víkurfrétta tók meðfylgjandi myndir