Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Hóteldraumur jarðsettur að Útskálum
    Frá framkvæmdasvæðinu við Útskála.
  • Hóteldraumur jarðsettur að Útskálum
Föstudagur 26. september 2014 kl. 07:57

Hóteldraumur jarðsettur að Útskálum

- Ráðstefnuhótel með 50 herbergjum sem aldrei varð að veruleika

Stórir draumar um byggingu hótels við Útskálakirkju verða jarðsettir að Útskálum í orðsins fyllstu merkingu. Grafið verður yfir sökkla hótelbyggingarinnar og safnaðarheimilis og svæðið snyrt. Mikið jarðrask er á svæðinu og umhverfið hefur ekki verið til sóma síðustu ár.

Hafist var handa við byggingu hótels og safnaðarheimilis að Útskálum á síðustu metrum góðærisins. Í ágústmánuði árið 2008 var sagt frá því að miklar jarðvegsframkvæmdir standi yfir við Útskála. „Þar er verið að undirbúa jarðveginn fyrir byggingu safnaðarheimilis og ráðstefnuhótels. Safnaðarheimilið verður í um 800 fermetra byggingu samtengt 50 herbergja ráðstefnuhóteli,“ sagði í frétt Víkurfrétta.
Í hótelinu og safnaðarheimilinu áttu að verða salir sem rúma allt að 500 manns og aðstaða fyrir fundi og ráðstefnur, auk aðstöðu fyrir veislur og samkomur tengdar kirkjulegum viðburðum. Í fréttinni frá því í ágúst 2008 segir að verið sé að ljúka við teikningar af byggingunum og fjármögnun verkefnisins og að í Garðinum gefi menn sér rúmt ár til að ljúka framkvæmdum á svæðinu.

Þrátt fyrir hrun og að kreppa hefði skollið á voru steypubílar í röðum að Útskálum í janúar 2009 þar sem sökklar fyrir hótel og safnaðarheimili voru steyptir. Þá var verið að færa gamla íbúðarhúsið að Útskálum í upprunalegt form en þar voru uppi áform um menningarsetur. Svo fór að verkefnið fór í þrot og sökklarnir fyrir byggingarnar hafa staðið óhreyfðir undanfarin ár. Landsbankinn eignaðist Útskálahúsið en Sveitarfélagið Garður hefur keypt það af bankanum og ráðgerir að ljúka við að innrétta húsið þannig að það nýtist fyrir kirkjustarf að Útskálum og að þar verði salir fyrir fundahöld eða smærri viðburði. Sökklar hótelsins og safnaðarheimilisins verða urðaðir og gengið þannig frá að þá megi grafa upp í framtíðinni ef vilji verði til þess að nýta mannvirkin. Þá verður útbúið bifreiðastæði á hluta svæðisins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024