Hótel Keflavík: Jólagistingin vakti mikla lukku
Jólagisting Hótels Keflavíkur gekk afar vel á aðventunni að sögn Steinþórs Jónssonar, hótelstjóra. Þetta var fjórða árið í röð sem hótelið stóð fyrir þessu átaki og voru yfir 500 manns sem fengu gistingu og morgunverð í ár.
„Við erum ánægð með hvernig gekk og fannst sem umfjöllun útávið hafi aukist og er það bara jákvætt fyrir bæinn," sagði Steinþór í samtali við Víkurfréttir.
Biðlistar voru um hverja helgi og þurfti að vísa fólki frá. Víkurfréttir heyrðu jafnvel af því að hótelið hafi þurft að vísa tugum gesta frá er flugvél sem var á leið til útlanda tafðist.
„Jú, það er rétt að við þurftum í nokkrum tilfellum að vísa borgandi gestum frá, en við stóðum við okkar tilboð gagnvart gestum bæjarins. Máil snýst um að leggja ýmislegt á sig fyirir bæinn."
Steinþór segist hvergi hættur og stefni á framhald að ári. „Við viljum raunar útvíkka frekar en að draga saman seglin og lítum út fyrir landsteinana í því sambandi. Hugmyndin er að vera með sama tilboð fyrir erlenda gesti." Áætlað er að auglýsa á áfangastöðum IcelandExpress og Icelandair og er vonast til að fá erlenda gesti á virkum dögum, en helgarnar verða sem fyrr fráteknar fyrir Íslendinga.
Steinþór vil að lokum þakka þeim fjölmörgu verslunareigendum sem hafa haft samband og segir gott að fá góð viðbrögð við átakinu.
Viðbrögð gesta hótelsins hafa ekki látið á sér standa og birtist meðfylgjandi grein í Morgunblaðinu á aðfangadag.
Ótrúleg gestrisni
Frá Nielsi Árna Lund og Kristjönu Benediktsdóttur.
Auglýsing frá Hótel Keflavík sem birst hefur á aðventunni vakti athygli okkar hjónanna. Þar kom fram að hverjum þeim sem verslaði fyrir meira en 14,800kr í Reykjanesbæ stæði viðkomandi hótel opið meðan húsrúm leyfði; ásamt gistingu og morgunverði.
Frúin pantaði gistingu. Lífsreynslan sagði hinsvegar að einhver böggull hlyti að fyljga slíku skammrifi; ekkert væri ókeypis í þessu lífi, síst af öllu auglýst tilboð. Annað kom á daginn; allt stóðst fullkomlega. Við brugðum okkur sumsé til hinnar góðu gömlu Keflavíkur í Reykjanesbæ sl. laugardag; hittum vini og kunningja, fórum í nokkrar verslanir og keyptum sitthvað til jólanna. Þar með - svo ótrúlegt sem það kann að hljóma - nægði það til að Steinþór Jónsson og hans ágæta lið á Hótel Keflavík, bauð okkur - sem aðra - velkomin að njóta næðis á þeirra fallega hóteli. Þar að auki beið okkar ókeypis morgunverðarhlaðborð næsta morgun.
Tvennt vakti einkum athygli: Annars vegar að Hótel Keflavík er eitt besta hótel sem við höfum gist hér á landi. Státar af fjórum stjörnum. Móttakan hlýlega búin og hefur á sér alþjóðlegan blæ, herbergin sömuleiðis, búin sjónvarpi, minibar, sóf, góðum stól og ágætu rúmi. Hitt atriðið sem ég vil nefna er þessi jákvæði þankagangur hótelstjórans Steinþórs Jónssonar. Með framtakinu er hann vissulega að vekja athygli ferðafóks og annarra á Hótel Keflavík og benda fólki á að njóta þar góðs atlætis og að það sé tilvalinn áningastaður fyrir og eftir brottför úr landinu. Um það gilda annars sérstök tilboð. Steinþór sýnir einnig með þessu framtaki mikla gestrisni sem var aðalsmerki íslenskra heimila og kallaði alla vegfarendur í hlað.
Hafið kæra þakkir frá okkur hjónum og gangi ykkur vel.
NÍELS ÁRNI LUND OG KRISTJANA BENEDIKTSDÓTTIR, Gvendargeisla 34, Reykjavík.