Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hótað lífláti fyrir að vekja athygli á dauðum laxi
Mánudagur 7. október 2002 kl. 15:26

Hótað lífláti fyrir að vekja athygli á dauðum laxi

“Mér var hótað lífláti og það í tvígang af starfsmanni sjóeldisfyrirtækisins en ég vakti athygli á umgengni í og við sjóeldiskví þess í Helguvík", segir Tómas Knútsson en hann er stofnandi Bláa hersins en það er umhverfis-félag og hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu í hreinsun í hafinu við strandir Suðurnesja og víðar. Tómas var meðal frummælenda á ráðstefnu í Eldborg í Grindavík í dag um “Dag vatnsins". Þar vakti hann athygli á slæmri umgengni víða í hafinu og sýndi sláandi myndir af dauðum laxi í sjókví sem hann fann í Helguvík fyrir nokkrum misserum.Tómas segir að meðfylgjandi myndir hafi verið sýndar í viðeigandi ráðuneyti sem hefði brugðist þannig við að hreinsunarlið hafi verið sent á staðinn þar sem dauður fiskur og fleira hafi verið hreinsað að hafsbotni Helguvíkur og nágrennis. “Þetta voru 20 tonn af fallegum laxi sem ég fann á hafsbotni, nokkra metra frá landi við Helguvík. Þetta var stórt umhverfisslys. Það er ljóst að fiskurinn drapst þegar eigendur kvíarinnar voru að reyna að færa hana í óveðri sem gekk yfir en þegar slíkt gerist getur fiskurinn drepist því kvíin dregst saman í flutningi. Það er deginum ljósara að í fyrsta lagi er nánast ekki hægt að reka sjókvíaeldi á Íslandi vegna veðurs. Í öðru lagi virðast þeir sem hafa stundað þetta ekki hafa gert sér neina grein fyrir því að það þarf að vera með mikið eftirlit og hreinsun á og við kvínna. Ég veit um dæmi þar sem 3 tonna kví sexfaldaðist í þyngd þegar hún var tekin upp", segir Tómas en hann kom víða við í kynningu sinni á ráðstefnunni í dag.
Þessar hreinsunaraðgerðir Tómasar og Bláa hersins hafa ekki alltaf vakið hrifningu enda ljóst að málið er viðkvæmt. Hann sýndi með myndum margvíslegan sóðaskap í sjó. Þegar hann kom upp um umrætt “slys" í Helguvík fékk hann líflátshótun frá starfsmanni fyrirtækisins sem spjótin stóðu á og ekki einu sinni heldur í tvígang. “Það var ekki skemmtilegt. Ég fór heim til dóttur minnar og hreinlega grét. Ég trúði þessu ekki og var miður mín."
Tómas segir að rekstur laxeldis í sjó hér á landi sé í algeru skötulíki. Hann segist hissa á þeim sem leggi í þennan rekstur því bæði séu aðstæður til eldis hér mun erfiðari en hjá öðrum þjóðum vegna kaldari sjávar og eins vegna gríðarlegrar framleiðslu Norðmanna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024