Horfur betri á Suðurnesjum en annars staðar
Hamfarir þær sem lagt hafa efnahagslíf þjóðarinnar á hliðina voru til umræðu á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær. Bæjarfulltrúar voru sammála um að þrátt fyrir alvarlega stöðu væru horfur hér á Suðurnesjum betri en annars staðar vegna þriggja stórverkefna sem væru í farvatninu, þ.e. álver og kísilmálmverksmiðja í Helguvík ásamt gagnaveri á Vallarheiði.
Fram kom á fundinum að endurskoða þarf fjárhagsáætlun bæjarins í ljósi breyttra aðstæðna. Ljóst er að bæjarfélagið mun þurfa að greiða talsvert hærri húsleigu til Fasteignar vegna breytinga á gengi. Á móti kemur að bæjarsjóður þarf ekki að glíma við skuldir og fjármagnskostnað af eignunum, að því er fram kom í máli Árna Sigfússonar, bæjarstjóra.
Guðbrandur Einarsson oddviti A-listans sagði að áfallið sem Suðurnesjamenn upplifðu við brotthvarf hersins væri hjóm eitt í samanburði við það sem framundan væri. Ástæða væri til að gaumgæfa vandlega hvernig samfélagið yrði sem best búið undir það.
Árni Sigfússon gat þess í máli sínu að þrátt fyrir erfitt árferði væri ekki ástæða til að skera niður grunnþjónustu í bæjarfélaginu. Bæjarfulltrúar voru sammála um að kappkostað yrði að veita því fólki aðstoð sem á henni þyrfti að halda og búa þyrfti félagsþjónustu bæjarins undir það.