Horft til árangurs í læsi á Suðurnesjum
Þjóðarsáttmáli til að tryggja jafnan rétt barna
„Þjóðarsáttmáli um læsi snýst um að tryggja jafnan rétt barna,“ sagði Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra við undirritun sáttmálans í Bókasafni Reykjanesbæjar á þriðjudag. Illugi sagði jafnframt að mjög væri horft til þess árangurs sem orðið hefur á læsi á Suðurnesjum á skömmum tíma og væri til fyrirmyndar. 30% drengja á Íslandi og 12% stúlkna geta ekki að lesa sér til gagns við lok grunnskóla. Við það væri ekki unað, þar sem sú niðurstaða byggi til stéttaskiptingu.
Gylfi Jón Gylfason, fyrrverandi fræðslustjóri í Reykjanesbæ er í dag verkefnastjóri hjá Menntamálastofnun og hafa hann og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra farið um suðvesturhorn landsins á síðustu vikum til þess að undirrita þjóðarsáttmálann. Auk menntamálaráðherra skrifar bæjarstjóri hvers sveitarfélags og fulltrúi frá landssamtökunum Heimili og skóli undir sáttmálann.
Lítil útgáfa sáttmálans er einnig undirrituð, henni rúllað upp og stungið í Íslandslíkan. Á bókasafninu í Reykjanesbæ undirrituðu Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ, Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði og Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Garði sáttmálann. Fulltrúi Heimilis og skóla var Anna Sigríður Jóhannesdóttir.
Ráðherra og föruneyti fóru einnig til Grindavíkur og þar undirrituðu þeir Róbert Ragnarsson bæjarstjóri Grindavíkur og Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum Þjóðarsáttmálann.