Hópuppsagnir hjá faglærðum á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra
Félagar í Bandalagi háskólamanna sem starfa á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík og á Reykjanesi skiluðu margir hverjir inn uppsagnarbréfi sínu í dag.
Ástæðan fyrir þessu er sú að samningar þeirra runnu út þann 1. maí og ekki var búið að semja upp á nýtt þrátt fyrir loforð þess efnis fyrir ári síðan. Einn fundur var haldinn í febrúar síðastliðnum og síðan þá hefur ekkert gerst. Eru félagsmenn orðnir langþreyttir á aðgerðarleysi því laun þeirra eru um 30.000 krónum lægri en fyrir sambærilegt starf á leikskóla.
Um 170 faglærðir aðilar starfa hjá svæðisskrifstofunni og er mikil samstaða meðal félagsmanna og búist er við að fjöldi þeirra skili inn uppsagnarbréfi.
Á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi skiluðu tuttugu manns inn uppsagnarbréfi sínu og von var á fleirum síðar í dag.
Starfssvæði Svæðisskrifstofunnar eru sveitarfélögin:
Bessastaðahreppur, Garðabær, Gerðahreppur, Grindavík, Hafnarfjörður, Kjalarneshreppur, Kjósarhreppur, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjanesbær, Sandgerði, Seltjarnarnes og Vatnsleysustrandarhreppur
VF-mynd/Hilmir