Hópsnes hirðir ruslið á Suðurnesjum
Nýr verktaki tekur við sorphirðu á Suðurnesjum frá og með næstu mánaðamótum. Það er fyrirtækið Hópsnes frá Grindavík sem tekur við verkefninu sem hefur verið á hendi Íslenska gámafélagsins síðustu ár.
Sorpeyðingarstöð Suðurnesja, Kalka, bauð nýverið út sorphirðu á Suðurnesjum og nokkra aðra verkþætti í sorpflutningum. Sex tilboð bárust og þar af fjögur í sorphirðu. Tvö tilboð voru í önnur verkefni.
Hópsnes bauð lægst í sorphirðu á Suðurnesjum, 69,8 milljónir króna. Næst lægsta tilboð var frá Íslenska gámafélaginu var tólf milljónum króna hærra en tilboð Hópsness.
Nokkrir aðrir liðir í flutningum á sorpi voru einnig boðnir út og hreppti Íslenska gámafélagið hnossið í þeim öllum, utan þess að Hópsnes annast flutninga á brettum og Hringrás kaupir allt brotajárn frá Kölku.
Gert er ráð fyrir að sorphirða frá íbúðum á Suðurnesjum verði á 10 daga fresti eins og verið hefur. Nýir samningar um þjónustuþætti taka gildi 1. febrúar 2012 nema samningur um pappírsgáma sem tekur gildi hinn 1. júní 2012.