Hönnun að erlendri fyrirmynd
Vinnustofa Arkitekta hannaði útlit Reykjaneshallarinnar og teiknistofan Storð umhverfi hennarSigríður Sigþórsdóttir, arkitekt, hafði yfirumsjón með verkinu fyrir hönd stofunnar ásamt Indro Candi, arkitekt. Framkvæmdin var boðin út í alútboði fyrir rúmu ári síðan og þá var öll hönnun innifalin. Sigríður segir að þau hafi strax orðið mjög spennt fyrir þessu verki því þarna hafi verið um brautryðjendastarf hjá Reykjanesbæ að ræða. „Okkur þótti því nauðsynlegt að sækja okkur reynslu til sambærilegra bygginga erlendis og skoðuðum slík hús í Finnlandi, Danmörku og Hollandi“, segir Sigríður og bætir við að íslenskir forsvarsmenn framkvæmdanna hafi þegar verið búnir að kynna sér hvernig t.d. Danir hafa staðið að slíkum málum. „Hús af þessu tagi eru t.d óeinangruð í Danmörku, þau eru frekar yfirbyggðir fótboltavellir en hefðbundin íþróttahús. Við Íslendingar gerum meiri kröfur og þar sem veðurfar í Finnlandi er svipað og á Íslandi gátum við vel nýtt okkur reynslu þeirra“, segir Sigríður.Aðspurð um gang framkvæmda segir Sigríður að verkið hafi gengið skínandi vel og telur að framkvæmdin sé í heild sinni til sóma. „Þetta stórhýsi er byggt á miklum hraða sem er einkennandi fyrir fram-kvæmdir í dag. Þjónustu-húsið varð stærra en um var beðið, og kannski sem betur fer því mér skilst að það sé þegar orðið of lítið, sem segir okkur hversu mikil aðsókn er að húsi af þessu tagi. Reykjaneshöllin verður án efa mikil lyftistöng fyrir íþróttahreyfinguna á svæðinu“, segir Sigríður að lokum.