Holt fær verðlaun fyrir læsisverkefni
Leikskólinn Holt fékk á dögunum sérstök aukaverðlaun fyrir læsishvetjandi verkefni innan eTwinning verðlauna Eramus+ 2016. Á vef Reykjanesbæjar kemur fram að verðlaunin séu frábær viðurkenning til starfsfólks fyrir fagmennsku og gott leikskólastarf.
Nýverið var greint frá því að leikskólinn Holt væri tilnefndur til eTwinning verðlauna 2016 innan Evrópuverkefnisins Eramus+ fyrir verkefnið Lesum heiminn. Þar er barnasagan um Greppikló notuð til að vinna viðfangsefni þar sem læsi og lýðræði eru tengd saman. Í desember síðastliðnum fékk skólinn gæðaviðurkenningu frá Rannís fyrir verkefnið.
Verkefni Holts fellur í flokk barna á aldrinum 4 til 11 ára og er markmið þess að fá börn til að hugsa út fyrir rammann og nota skapandi hugsun. Í verkefninu hefur leikskólinn átt í samstarfi við leikskóla í Póllandi, Frakklandi, Slóveníu og á Spáni.
Leikskólinn Holt fékk verðlaun fyrir verkefnið Lesum heiminn í desember síðastliðnum frá Rannís og var myndin tekið við það tilefni. Frá vinstri á myndinni eru Helgi Arnarson, fræðslustjóri Reykjanesbæjar, Kristín Helgadóttir, leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar og fyrrverandi leikskólastjóri á Holti, Anna Sofia Wahlström, deildarstjóri á Holti og frumkvöðull skólans á sviði etwinning og erasmus verkefna, Sigurbjört Kristjánsdóttir, deildarstjóri á Holti og verkefnastjóri verkefnisins og Heiða Ingólfsdóttir, leikskólastjóri á Holti.