Holótt Reykjanesbraut í slæmu ástandi
– Erfitt að eiga við þær í tíðarfari eins og nú, segir yfirverkstjóri.
Vegfarendur sem aka Reykjanesbraut hafa sumir orðið harkalega varir við holur sem myndast hafa í malbikinu á undanförnum vikum. Ástand vegarins er sérstaklega slæmt þegar nálgast Hvassahraun í áttina norður, en einnig eru holur á löngum kafla á nýrri hluta Reykjanesbrautar á Strandarheiði. Oft er erfitt að greina holurnar í slæmu skyggni og á fjölfarnasta vegi á landinu, utan þéttbýlis, og getur auðveldlega boðið hættunni heim.
Blaðamaður Víkurfrétta, sem ekur þessa leið daglega, tók meðfylgjandi myndir í gær.
Jóhann Bjarni Skúlason, yfirverkstjóri hjá þjónustustöð Vegagerðinnar í Hafnarfirði, segir að verið sé að reyna að laga þetta með viðgerðarefni en tíðarfarið sé þannig að þó að það sé lagað einn dag þá geti það verið komin hola aftur á daginn eftir. „Það spænist upp úr þessu jafn óðum. Við getum ekki lagað þetta varanlega fyrr en líður lengra á sumarið eða vorið. Það er hörmulegt að eiga við þetta.“
Verið sé að útbúa útboðsgögn fyrir sumarið í malbiki og yfirlögnum. Svo verði ákveðið hvaða kafla skul taka. „Á kostnaðaráætlun þar sem þyrfti að malbika á mínu umráðasvæði eru tveir milljarðar en fjárveitingin er ekki nema 800 milljónir. Peningamálin skipta öllu máli í þessu,“ segir Jóhann Bjarni. Að sjálfsögðu verði verstu blettirnir teknir fyrst en ákvarðanir verði teknar með það núna í mars.
Spurður um merkingar til að vara við holunum segir Jóhann Bjarni að þegar þeir fái fregnir af holum þá fari þeir frekar og fylli í þær en að setja upp merkingar og keilur sem fjúki svo bara eða verði rutt burt af mokstursbílum. „Þetta er erfitt við að eiga. Við erum með verktaka sem eru að gera við þessar holur núna á fullu á góðum degi eins og í dag. Þá reynum við að komast yfir eins mikið og við mögulega getum.“