Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hólmsteinn í heimahaga - síðasti túrinn var bíltúr
Föstudagur 20. nóvember 2009 kl. 20:21

Hólmsteinn í heimahaga - síðasti túrinn var bíltúr

Netabáturinn Hólmsteinn GK fór í sinn síðasta túr í dag - og það var bíltúr. Bátnum var komið fyrir á trukki með tengivagn sem samtals taldi 72 hjól. Stefnan var tekin á Garðskaga þar sem hafði verið grafin hola fyrir Hólmstein, þar sem hann mun hvíla um ókomin ár. Hólmsteinn GK er sem sagt orðinn safngripur á Byggðasafninu á Garðskaga. Báturinn komst í eigu Sveitarfélagsins Garðs fyrir nokkrum misserum en það var Nesfiskur í Garði sem gerði bátinn síðast út. Áður var hann í eigu útgerðar og fiskvinnslu í Garði sem bar nafnið Hólmsteinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Hugmyndir hafa verið uppi í nokkur ár að koma Hólmsteini fyrir á Garðskaga. Þannig hefur ljósmyndari Víkurfrétta nokkrum sinnum verið fenginn til að setja saman myndir í myndvinnsluforritum sem sýna bátinn í umhverfinu á Garðskaga. Þær myndir virðast hafa sannfært forsvarsmenn byggðasafnsins um að þeir staðir sem voru prófaðir á myndum eru ekki þeir sem báturinn var settur niður á nú undir kvöld.


Hólmsteinn GK á farsæla útgerðarsögu. Frá því útgerð hans var hætt hefur báturinn legið í höfninni í Sandgerði og var þar fyrir fáeinum vikum þegar hann var sigldur niður í höfninni með þeim afleiðingum að hann sökk. Bátnum var bjargað aftur upp á yfirborðið á tæpum sólarhring og þveginn hátt og lágt. Meira að segja vél bátsins fór í gang, þrátt fyrir að hafa farið á kaf í sjó.


Nú liggur fyrir að Hólmsteinn GK fær andlitslyftingu á Garðskaga og gengið þannig frá honum að gestir byggðasafnsins geti skoðað þennan gamla eikarbát sem var smíðaður þegar lýðveldið Ísland var aðeins tveggja ára.


Meðfylgjandi myndir voru teknar á Garðskaga í ljósaskiptunum síðdegis þegar Hólmsteinn átti aðeins örfáa metra eftir á áfangastað og var á leiðinni ofan í holuna góðu sem mun geyma hann til framtíðar.


Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson