Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hólmsteini GK komið af hafsbotni á morgun
Föstudagur 16. október 2009 kl. 20:44

Hólmsteini GK komið af hafsbotni á morgun

Ráðist verður í það í fyrramálið að koma Hólmsteini GK á þurrt en þetta fornfræga fiskiskip úr Garðinum liggur nú á botni Sandgerðishafnar eftir að dragnótaskipið Ásdís GK hafði siglt á Hólmstein GK í höfninni undir kvöld. Hólmsteinn sökk á innan við 10 mínútum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri í Garði er útgerðarmaður Hólmsteins GK. Hann skoðaði aðstæður í höfninni í Sandgerði í kvöld ásamt skipstjóranum Ásgeiri M. Hjálmarssyni, safnstjóra byggðasafnsins í Garði. Hólmsteinn hafði verið gefinn Sveitarfélaginu Garði en hugmyndir voru uppi um að gera Hólmstein GK að safni, enda báturinn safngripur.


Í samtali við Víkurfréttir í kvöld vissu þeir ekki hvað yrði um bátinn, því skemmdir á honum voru mönnum ekki að fullu ljósar. Það var þó ljóst að Ásdís GK sigldi á bátinn af töluverðu afli eftir að gír bilaði í Ásdísi GK og ekki tókst að bakka í tæka tíð. Hólmsteinn GK sökk á um 10 mínútum.

Það eru tryggingar útgerðar Ásdísar GK sem munu bæta tjónið.


Meðfylgjandi myndir voru teknar á vettvangi nú í kvöld en á efstu myndinni eru þeir Ásgeir M. Hjálmarsson og Ásmundur Friðriksson. Ljósmyndir: Hilmar Bragi