Hólmgeir Guðmundsson látinn
Hólmgeir Guðmundsson, heiðursfélagi í Golfklúbbi Suðurnesja og einn tveggja „guðfeðra“ Hólmsvallar er látinn, 89 ára að aldri. Hólmgeir átti ásamt Herði bróður sínum, stærstan þátt í uppbyggingu Hólmsvallar í Leiru.
Hólmgeir kom strax að vallarmálum í Leirunni eftir stofnun golfklúbbsins. Hann var formaður vallarnefndar og vallarstjóri í mörg ár GS og lét sig varða uppbyggingu vallarins langt fram á aldur. Hann lét ekki hlutina flækjast fyrir sér heldur fór í þá, lét hendur standa fram úr ermum og lét þá gerast. Eitt af hans síðustu verkum þegar hann var kominn á áttræðisaldur var að byggja nýja flöt á 12. braut í Leirunni. Varla er sú þúfa á vellinum sem hann hefur ekki komið að. Þegar Hólmsvöllur var stækkaður í 18 holur árið 1986 var nýtt klúbbhús byggt á sama tíma. Þeir bræður voru þá í eldlínunni á traktornum, á sláttuvélunum eða með verkfæri á lofti.
Hólmgeir var gerður að heiðursfélaga GS á 30 ára afmæli GS ásamt Herði bróður sínum og voru þeir fyrstu heiðursfélgar Golfklúbbs Suðurnesja.
Hólmgeir verður jarðsunginn frá Keflavíkurkirkju fimmtudaginn 25. mars nk.
Á efri myndinni má sjá Hólmgeir rétt fyrir opnun golfskálans 1986 og á neðri myndinni er hann að slá fyrsta höggið við víglsu Hólmsvallar.