Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hollywood-áhrif á Ljósanótt
Sunnudagur 28. ágúst 2005 kl. 23:10

Hollywood-áhrif á Ljósanótt

Hin svokallaða Hollywood-innrás sem átti sér stað í Reykjanesbæ í sumar hefur sín áhrif á Ljósanótt í Reykjanesbæ. Þannig mun Steven Riley, einn eftirsóttasti tæknibrellumeistari, taka þátt í setningarathöfn Ljósanætur nk. fimmtudag.

Hann starfar nú að kvikmyndinni Flags of Our Fathers en ferill hans er einn sá glæsilegasti í Hollywood þegar það kemur að því að blekkja augað. Kvikmyndir sem hann hefur unnið að eru t.d. The Island, xXx: State of the Union, Million Dollar Baby, The Aviator, Mystic River, Blood Work, Windtalkers, Spider-Man, Pearl Harbor, Armageddon, Outbreak og Fatal Instinct.

Formaður Ljósanætur, Steinþór Jónsson, býður gesti velkomna og kynnir. Bæjarstjóri Árni Sigfússon setur hátíðina. Steven Riley,  hefur stutta tölu og Védís Hervör syngur Ljósalagið 2004. Grunnskólabörn koma í skrúðgöngum frá skólum sínum og 2500 blöðrum verður sleppt til himins. Allir eru velkomnir á setningarathöfnina.
Þá hefur spurst út að tæknibrellumeistarar verði innan handar við flugeldasýninguna á laugardagskvöldið en sprengiefni og púður er þeim hugleikið í stórmyndinni Flags of our Fathers, sem nú er verið að taka upp í Reykjanesbæ og í Krýsuvík.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024