Hnefaleikahöll opnar í gömlu Sundhöllinni
Hnefaleikafélag Reykjaness hefur fengið Sundhöllina í Keflavík til afnota um tíma. Þar er verið að koma upp hnefaleikahöll og mun starfsemi félagsins hefjast þar af fullum krafti í vikunni.
Sundlaugin var tekin í notkun á árinu 1919 og byggt yfir hana um 1940. Nýlega tók nýja innisundlaugin í Sundmiðstöðinni við hlutverki Sundhallarinnar.
Öflugt starf er hjá Hnefaleikafélagi Reykjaness en það hefur búið við ófullnægjandi aðstæður. Nú æfa um 110 börn og unglingar ólympíska hnefaleika hjá félaginu. Aðstaðan í Sundhöllinni bætir úr og hægt verður að fjölga iðkendum. Þar verður framvegis uppi löglegur keppnishringur til æfinga fyrir félagsfólk og til keppni.
Mynd: Boxhringurinn kominn á sinn stað og búið að setja gólf yfir gömlu sundlaugina. VF-mynd: Hilmar Bragi