Hnausþykkar Víkurfréttir fyrir rafrænan lestur
Víkurfréttir vikunnar eru 70 síður og efnistökin eru fjölbreytt. Viðtöl við Suðurnesjafólk er það sem við leggjum mesta áherslu á. Þetta er ellefta tölublaðið sem kemur út eingöngu í rafrænu formi en síðan við hófum að gefa út rafrænt blað eru síðurnar orðnar 736. Viðtökurnar hafa heldur ekki látið á sér standa því í hverri viku er blaðið sótt yfir 15.000 sinnum.
Í Víkurfréttum í þessari viku er viðtal við Sandgerðinginn Halldór Berg Harðarson. Hann hefur búið og starfað í Kína í yfir átta ár og er um þessar mundir með hundruð kínverskra vísindamanna á námskeiði í gegnum netið. Námskeiðinu er stjórnað frá Sandgerði.
Fyrstu síður blaðsins birta helstu fréttir frá Suðurnesjum.
Þá er myndarleg umfjöllun um útskrift frá vorönn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Umfjöllunin er ríkulega skreytt með myndskeiðum frá útskriftinni. Þar má heyra ávörp bæði skólameistara og fulltrúa nemenda, auk þess sem sjá má og heyra tvö tónlistaratriði.
Dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja er Sandgerðingurinn Salka Lind Reinhardsdóttir. Hana langar að vinna við glæparannsóknir í framtíðinni. Hún er í viðtali við Víkurfréttir í þessari viku.
Menntamál eru fyrirferðarmikil í blaði vikunnar, því við segjum frá fagháskólanámi í leikskólafræðum á Suðurnesjum og sjávarakademíu sem sett hefur verið á laggirnar.
Bylgja Baldursdóttir aðstoðarskólastjóri í Sandgerði er í netspjalli við Víkurfréttir en hún ætlar að elta sólina um landið í sumar.
Við tökum stöðuna á sjómanni í Argentínu sem beið um borð í togara í tvo mánuði áður en hann komst í land og heim til sín. Þar er kórónuveiran grasserandi á fullu þessa dagana.
Fréttir og myndir af sjómannadeginum af síðum Víkurfrétta í gegnum tíðina eru birtar í þessu tölublaði.
Það er myndarleg íþróttaumfjöllun og sjóðheitar fréttir af holu í höggi á Bergvíkinni í Leiru. Einnig er vegleg umfjöllun um golf í Grindavík.
Agnar Már Gunnarsson er í netpsjalli. Hann er gegnheill Njarðvíkingur og körfuboltaþjálfari.
Tónlistarkonan Elíza Geirsdóttir Newman kynnir okkur fyrir fimm plötum. Hún gæti reyndar kynnt okkur fyrir 50 plötum eða jafnvel 500. Hún var líka að gefa út nýtt lag og hægt er að hlusta á lagið í rafrænu blaði vikunnar.
Hreyfileikar voru haldnir á Keflavíkurflugvelli og flugbrautum var breytt í hlaupabrautir hluta úr degi. Við vorum þar og horfa má á sjónvarpsinnslag í blaðinu.
Við segjum frá opnun sýninga í Duus Safnahúsum en á föstudag, 5. júní, eru sumarsýningar að opna í safnahúsunum í Grófinni.
Jóhannes Albert Kristbjörnsson er í netviðtal við Víkurfréttir. Mörg áhugaverð svör hjá honum.
Sigríður Rósa Kristjánsdóttir er líka í netviðtali. Hún er ekkert fyrir pöddur og kóngulær.
Inga Birna Ragnarsdóttir er svo með lokaorð blaðsins að þessu sinni þar sem Prump fær það óþvegið.
Blaðið má sjá hér að neðan.