Hluti vegarins að Reykjanesvita lagaður
Ástandið á veginum út að Reykjanesvita hefur verið mjög slæmt nú í vor. Hann hefur eiginlega verið hálfgerð vegleysa og hafa ferðamenn þurft að fara hægt yfir, enda fjölmargar holur og margar hverjar stórar.
Ljósmyndari Víkurfrétta skoðaði veginn í síðustu viku og á sama tíma var fulltrúi Vegagerðarinnar að gera úttekt ástandi vegarins. Hann sagði að fjárveitingar leyfðu aðeins viðhald á hluta vegarins eða frá þeim stað þar sem malbik endar og að gatnamótum þar sem ekið er annars vegar að Reykjanesvita og hins vegar að Gunnuhver.
Þessi hluti vegarins verður lagfærður.