Hluti Hlévangs rekinn sem hjúkrunardeild
Á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í síðustu viku kom fram að heimild hefur verið veitt til að reka hluta dvalarheimilisins Hlévangs sem hjúkrunardeild. Víkurfréttir leituðu til Finnboga Björnssonar, framkvæmdastjóra Dvalarheimila aldraðra Suðurnesjum, sem rekur heimilið, til að fá frekari fréttir af málinu.
Finnbogi upplýsti að sl. haust hefði verið gert samkomulag milli eignaraðila DS og heilbrigðisráðherra um skipan öldrunarmála á svæðinu. Fyrsti hluti þess væri að 10 dvalarrýmum á Hlévangi yrði breytt í hjúkrunarrými. Nú er unnið að lagfæringum á Hlévangi og innkaupum tækja og búnaðar. Nú þegar eru nokkrir heimilismenn á Hlévangi sem þurfa hjúkrunarrými, þar eða annarstaðar. Auglýst hefur verið eftir fagfólki til starfa þar. Gert er ráð fyrir að þessi skipan mála verði á Hlévangi þar til að nýtt hjúkrunarheimili verður risið í Reykjanesbæ á svæði sem er nú í skipulagslegri hönnun. Er þar gert ráð húsbyggingu fyrir allt að 90 hjúkrunarrýmum byggðum í þrem einingum, 30 rúm í hverri, þjónustubyggingu o.fl. Einnig verða byggðar öryggisíbúðir sem verða þjónustutengdar. Er þetta hluti af uppbyggingu Reykjanesbæjar á svæðinu, sem er nánar tiltekið á íþróttasvæðinu í Njarðvík. Tímamörk opnunar nýja heimilisins eru áætluð 2007.
Hluti af nefndu samkomulagi eru endurbætur á hjúkrunarheimilinu Garðvangi. Er þar um breytingar á elsta húsnæðinu að ræða, bæði hvað varðar aðstöðu heimilismanna og starfsmanna.
Undirbúningur allra þátta er hafinn og sótt hefur verið um fjármagn til þessara verka.