Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hluthafar City Star Airlines óánægðir
Þriðjudagur 5. febrúar 2008 kl. 12:15

Hluthafar City Star Airlines óánægðir

Megn óánægja er á meðal hluthafa í flugfélaginu City Star Airlines og munu þeir hafa farið fram á það fyrir síðasta hluthafafund að rannsókn yrði gerð á bókhaldi félagsins.  Það fékkst ekki. 
Skoska blaðið The Press and Journal segir forstjóra félagsins hafa fyrirskipað starfsfólki að flytja fé af reikningum félagsins stuttu áður en það hætti starfssemi. Hluthafar eru nú að skoða sín mál gagnvart félaginu.

The Press and Journal greinir frá því að Rúnar Áranson, forstjóri félagsins, hafi skipað starfsfólki sínu að millifæra 68 þúsund pund eða tæplega 9 milljónir króna inn á reikninga systurfélags City Star Airlines annarsvegar og móðurfélagsins á Íslandi City Star Holdings hinsvegar

Margir Suðurnesjamenn eru hluthafar  City Star Airlines  en félaginu var stjórnað af bræðrunum Rúnari og Atla Árnasonum. Það hætti starfsemi á dögunum og í tilkynningu sem gefin var út kom fram að alvarlegar skemmdir sem ein flugvél félagsins varð fyrir á Aberdeen flugvelli í nóvember síðastliðnum, hafi reynst félaginu of þungur baggi.  Félagið hafði fjórar Dornier flugvélar til umráða.

Hluthafafundur var nýlega haldinn í Grindavík þar sem erfið staða félagsins var kynnt og ákvörðun tekin um að hætta starfsemi, alla vega um sinn.
Á fundinum var ekki hægt að sýna tölur úr bókhaldi þar sem það lá ekki fyrir. Í röðum hluthafa mun hafa komið fram hörð gagnrýni  vegna þessa.  Þeir sem VF hefur talað við vilja lítið láta hafa eftir sér um málið á þessu stigi en segja að frétt skoska blaðsins renni stoðum undir grunsemdir þeirra.  Fjárfestar telja sig hafa tapað milljón pundum á félaginu eða rúmlega 130 milljónum kr. Yfir 50 manns störfuðu hjá félaginu.

The Press and Journal hefur eftir Atla Árnasyni, sem er forstjóri City Star Holdings, að nægt fé sé fyrir hendi til að endurvekja flugfélagið og að starfsfólk muni fá laun sín borguð nú í byrjun febrúar.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024