Hlutfallslega mest íbúafjölgun á Suðurnesjum
Íbúar Suðurnesja voru 32.583 talsins þann 1. október. Þeim hefur fjölgað um 1.621 frá 1. desember 2022. Í Reykjanesbæ hefur fjölgað um 1.278 íbúa á sama tímabili sem gerir 5,8% fjölgun íbúa. Hlutfallslega er þó mest fjölgun í Sveitarfélaginu Vogum eða 10,7%. Þetta kemur fram í nýjum gögnum frá Þjóðskrá.
Hlutfallslega hefur mest íbúafjölgun verið á Suðurnesjum eða um 5,2% sem er fjölgun um 1.621 íbúa. Samtals fjölgar íbúum á landinu öllu um 9.676 frá 1. desember 2022 til. 1. október 2023 sem er um 2,5%.
Í Reykjanesbæ búa 23.276 manns. Íbúar Suðurnesjabæjar eru orðnir 4.046 talsins. Fjölgunin þar er 137 talsins eða 3,5% á tímabilinu. Grindvíkingum fjölgar hægast á Suðurnesjum. Þeir eru 3.718 talsins og hefur fjölgað um 57 frá 1. desember 2022 eða 1,6%. Í Sveitarfélaginu Vogum voru íbúarnir 1.543 þann 1. október. Fjölgunin er 149 manns frá 1. desember 2022 eða 10,7% eins og áður segir.