Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hlutfallslega mest fólksfjölgun á Suðurnesjum
Mánudagur 20. mars 2017 kl. 11:09

Hlutfallslega mest fólksfjölgun á Suðurnesjum

Landsmönnum fjölgaði um 1,8% á síðasta ári. Hinn 1. janúar 2017 voru landsmenn 338.349 og hafði þá fjölgað um 5.820 frá sama tíma árið áður eða 1,8%. Konum og körlum fjölgaði nokkuð jafnt en karlar eru eigi að síður 3.717 fleiri en konur.
 
Hlutfallslega varð mest fólksfjölgun á Suðurnesjum eða 6,6%. Mikil fólksfjölgun var á höfuðborgarsvæðinu en íbúum þar fjölgaði um 3.259 í fyrra eða 1,5%. Einnig fjölgaði íbúum á Suðurlandi (2,1%), Norðurlandi eystra (1,1%) og Vesturlandi (1%), en minna á Norðurlandi vestra (0,4%) og Austurlandi (0,4%). Fólksfækkun var á Vestfjörðum, en þaðan fluttust 13 manns (0,2%) í fyrra.
 
Níu sveitarfélög með yfir 5.000 íbúa
Alls 74 sveitarfélög voru á landinu á áramótum, en það er óbreyttur fjöldi frá því í fyrra. Sveitarfélögin eru misstór. Alls var íbúatala sex sveitarfélaga undir 100 en undir 1.000 í 40 sveitarfélögum. Einungis níu sveitarfélög höfðu yfir 5.000 íbúa.
 
Í þéttbýli bjuggu 316.904
Hinn 1. janúar síðastliðinn voru 60 þéttbýlisstaðir á landinu með 200 íbúa eða fleiri og fækkaði um einn milli ára. Auk þeirra voru 36 smærri staðir með 50–199 íbúa sem er fjölgun um einn frá fyrra ári. Í þéttbýli bjuggu 316.904 og fjölgaði um 5.054 milli ára. Í dreifbýli og smærri byggðakjörnum bjuggu 21.455 manns hinn 1. janúar síðastliðinn.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024