Hlutfallslega flestir á bótum á Reykjanesi
Langflestir þeirra sem töldu fram atvinnuleysisbætur á skattframtali ársins 2010 voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu, eða rúmlega 15 þúsund manns. Hlutfallslega fengu þó flestir greiddar bætur á Reykjanesi en um tuttugu prósent íbúa sveitarfélaga þar töldu fram atvinnuleysisbætur. Þetta kemur fram í grein Páls Kolbeins um mun á atvinnuleysi eftir sveitarfélögum í nýjasta hefti Tíundar, fréttablaðs ríkisskattstjóra.
Alls töldu 10.546 manns fram atvinnuleysisbætur í Reykjavík, 2.664 í Kópavogi og 2.379 í Hafnarfirði. Hlutfall íbúa sem töldu fram atvinnuleysisbætur í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði var í takti við landsmeðaltal eða í kringum 11-12 prósent. Þrátt fyrir að vera með flesta íbúa á bótum var Reykjavík aðeins í 22. sæti yfir hlutfall íbúa á atvinnuleysisbótum.
Á Reykjanesi var sama hlutfall mun hærra. Þannig var fjöldi þeirra sem töldu fram bætur í Reykjanesbæ sá fjórði mesti á landinu þó að sveitarfélagið sé það fimmta stærsta.
Sandgerðisbær trónir á toppnum yfir hæst hlutfall framteljanda á atvinnuleysisbótum en þar var það 20,3%. Í Reykjanesbæ var það 19,3%, í Vogum 18,2% og 17,2% í Garði.
Þannig eru atvinnuleysisbætur mikilvægur hluti tekna sumra sveitarfélaga á landinu. Þannig eru þær 5,9% tekna Helgafellsveitar þar sem 18,4% framteljenda gáfu upp atvinnuleysisbætur.
Á Reykjanesi er þetta hlutfall af tekjum sveitarfélaganna yfir fjórum prósentum í Reykjanesbæ, Garði, Vogum og Sandgerði.
Frá þessu er greint á vef Morgunblaðsins, mbl.is