Hlutdeildarlán ríkisins nýtt sextíu sinnum á Suðurnesjum
Hlutdeildarlán ríkisins hafa komið að góðum notum á Suðurnesjum en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur samþykkt 60 umsóknir á Suðurnesjum. Stærstur hluti þeirra er í Reykjanesbæ, 50 talsins (þrjár í Keflavík, 35 í Njarðvík og tólf á Ásbrú). Suðurnesjabær kemur þar á eftir með sjö umsóknir (fjórar í Garði og þrjár í Sandgerði) og þá voru þrjár umsóknir samþykktar í Vogum.
Byrjað var að veita hlutdeildarlán í nóvember á síðasta ári en úrræðið er ætlað að hjálpa fólki við kaup á fyrstu íbúð. Með hlutdeildarláni þarf eigið fé umsækjanda aðeins að nema um 5% af verðmæti íbúðar en ríkið brúar mismuninn á móti lánastofnunum.
Í svari Ásmundar Daða Einarssonar, félags- og barnamálaráðherra, við fyrirspurn Önnu Kolbrúnar Árnadóttur um hlutdeildarlán ríkisins kemur fram að á Suðurnesjum, á tímabilinu 1. nóvember til 1. maí síðastliðinn, hafi HMS samþykkt 60 hlutdeildarlán á Suðurnesjum. Alls voru samþykktar 263 umsóknir á tímabilinu þar sem umsækjandi var með kaupsamning.