Hlustuðu af athygli á skessusögur
Barnahátíðin í Reykjanesbæ, sem stóð tvo síðustu laugardaga, tókst með ágætum. Fjölmargir nýttu sér afþreyingu og skemmtun sem var í boði víða um Reykjanesbæ. Meðal annars fjölmenntu foreldrar með börnin í Bókasafn Reykjanesbæjar þar sem Svanhildur Eiríksdóttir las úr sögum af Siggu og skessunni í fjallinu, en sem kunnugt er af fréttum þá er skessan góða flutt til Reykjanesbæjar og hefur hreiðrað um sig í helli við smábátahöfnina í Grófinni.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi á bókasafninu í gær.