Hlupu uppi ölvaðan ökumann
Lögreglumenn á Suðurnesjum hlupu í nótt uppi ökumann sem hafði ekið á grindverk og var grunaður um ölvunarakstur. Ökumaðurinn hafði tekið bifreiðina ófrjálsri hendi en ekki komist langt því hann ók á grindverk skammt frá. Þegar hann sá lögreglumenn nálgast tók hann til fótanna. Hann sinnti í engu tilmælum um að nema staðar en var þá hlaupinn uppi, færður í handjárn og á lögreglustöð.
Þar kom í ljós að hann hefur aldrei öðlast ökuréttindi og hann viðurkenndi áfengisneyslu.
Fjarlægja þurfti bifreiðina með dráttarbifreið og urðu talsverðar skemmdir á grindverkinu.