Hljóðmælingakerfi komið upp við Keflavíkurflugvöll
Nýtt og gagnvirkt hljóðmælingakerfi hefur verið sett upp við Keflavíkurflugvöll. Kerfið er opið öllum í gegnum vef Isavia og hægt er að fá upplýsingar um flug sem nýlega hefur farið um flugvöllinn auk þess sem hægt er að sækja upplýsingar aftur í tímann.
Kerfið birtir upplýsingar hljóðmæla í byggðinni í kringum flugvöllinn og er því hægt að fylgjast með hljóðstyrk frá flugumferð og fá helstu upplýsingar um flug til og frá flugvellinum. Í kerfinu er sérstakur tilkynningahnappur þar sem hægt er að senda ábendingu um flug tiltekinnar flugvélar. Með þessu móti verða ábendingar vegna flugumferðar nákvæmari og betur skráðar auk þess sem auðveldara er að greina það hvort tiltekið flug hafi farið eftir þeim flugferlum sem skilgreindir hafa verið í kringum flugvöllinn. Sambærilegt kerfi er notað á mörgum stórum flugvöllum, til dæmis London Heathrow, Manchester flugvelli og Kaupmannahafnarflugvelli. Vegna mikillar gagnagreiningar og sendingar gagna yfir net þá eru mælingar birtar 30 mínútum eftir flug.
„Við erum auðvitað gríðarlega ánægð með þennan áfanga og það er akkúrat svona sem við viljum geta haft hlutina. Við viljum opna á þær upplýsingar sem í boði eru og leyfa íbúum að fylgjast með starfseminni. Í gegnum kerfið geta íbúar í kringum flugvöllinn, og aðrir sem hafa áhuga, fylgst með hljóðstyrk flugumferðarinnar sem fer um Keflavíkurflugvöll. Við sáum þetta fyrst fyrir nokkrum árum hjá erlendum flugvöllum og vorum strax ákveðin í því að fara þessa leið þannig að þetta hefur verið í undirbúningi síðan 2014. Við hvetjum alla íbúa til þess að kynna sér kerfið og fylgjast með í gegnum það. Ef vart verður við sérstaklega mikið ónæði af flugumferð er hægt að finna þá vél sem olli ónæðinu og skrá athugasemd á nákvæmlega það flug. Þannig verður öll skráning og eftirfylgni mun nákvæmari og auðveldari. Við getum þá tekið fyrir hverja ábendingu, séð hvaða gildi mælarnir sýndu og kannað hvort farið var eftir þeim flugferlum sem skilgreindir hafa verið til þess að minnka hávaða. Auk þess getum við kannað hvaða áhrif breytingar á flugferlum hafa á hljóðvist í byggð í Reykjanesbæ. Við erum því mjög spennt fyrir því að nota nýja kerfið og vonum að íbúar í nærumhverfinu séu það líka. Þröstur Söring, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar:
Kerfið er auðvelt í notkun en notkunarleiðbeiningar og upplýsingar um kerfið er að finna hér.
Kerfið sjálft er að finna hér.