Hlévangur verður áfram hjúkrunarheimili
Heilbrigðisráðuneytið hefur óskað eftir því við Reykjanesbæ að Hlévangur verði áfram nýttur sem hjúkrunarheimili. Nú er unnið að nýbyggingu við Nesvelli í Reykjanesbæ þar sem verða 80 ný hjúkrunarrými. Upphaflega áttu rýmin að vera 60 en samningar náðust um að bæta við 20 rýmum með því að bæta fjórðu hæðinni ofan á nýbygginguna.
Núna liggur fyrir að heilbrigðisráðuneytið vill fá að nýta Hlévang áfram sem hjúkrunarheimili þegar nýja hjúkrunarheimilið opnar. Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur falið Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur staðgengli bæjarstjóra og Heru Ósk Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs að eiga samtal við ráðuneytið um málið.
Á Hlévangi eru í dag 30 heimilismenn. Þar starfa milli 60-70 starfsmenn í mismunandi stöðugildum.
„Við erum með hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, félagsliða, ófaglært starfsfólk. Iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara og lækni. Samtenging við Nesvelli er mikil þar sem stoðdeildar vinna náið saman á milli heimila,“ segir Þuríður Elísdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Hlévangs og Nesvalla, í samtali við Víkurfréttir.
„Það er svo sannarlega þörf á að fjölga meira hjúkrunarrýmum fyrir okkar svæði en sem nemur því sem nýja heimilið fjölgar um þar sem staðan hefur breyst eftir að Víðihlíð var rýmd og fleiri sem voru heima með heimahjúkrun og félagslega þjónustu og áttu ekki heimili,“ segir Þuríður jafnframt.
Hjúkrunarheimilið Hlévangur við Faxabraut í Keflavík. Mynd: hrafnista.is