Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Hlaut alþjóðleg nýsköpunarverðlaun fyrir heilsukodda
Fimmtudagur 15. október 2009 kl. 13:54

Hlaut alþjóðleg nýsköpunarverðlaun fyrir heilsukodda


Njarðvíkingurinn Hulda Sveinsdóttir var í hópi sjö íslenskra kvenna sem fengu nýsköpunarverðlaun í Helsingi á dögunum en Hulda hefur unnið að nýrri gerð heilsukodda. Verðlaunin eru veitt af samtökum Evrópskra kvenna í frumkvöðla- og nýsköpunarstarfi. Konurnar sjö eru allar félagar í KVENN, félagi kvenna í nýsköpun.

Hulda hefur unnið að þróun heilsukoddans Keilis í nokkur en hún hefur stundað nám í frumkvöðlafræðum við Keili á Ásbrú. Til að komast inn í námið þarf nemandinn að hafa viðskiptahugmynd sem hann síðan þróar í náminu þar sem hann fær leiðsögn um gerð viðskiptaáætlunar og annað sem skiptir máli fyrir framgang hugmyndarinnar. Koddinn er fullþróaður en næsta skref í ferlinu er að koma vörunni í framleiðslu og á markað.

„Núna er ég komin að ákveðnum gatnamótum. Annað hvort er að finna framleiðanda og fjármagna þetta sjálf og taka þá áhættuna af því að framleiða, selja og markaðssetja koddann. Síðan er hin leiðin sú að maður selji frá sér framleiðsluleyfið en þá stjórnar maður ekki neinu eftir það. Þá selur maður hönnunarverndina með. Ég er í rauninni að leita að framleiðanda og fjárfesti,“ segir Hulda.

Sérstaða Keilis er einkum fólgin í að mynda stuðning undir höfuð og sitt hvoru megin við það. Þessir eiginleikar eru mikilvægir fyrir þá sem þjást af stoðkerfiseinkennum frá hálsi og herðasvæði og getur átt mikilvægan þátt í því að þessir einstaklingar nái góðum nætursvefni. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024