Hjúkrunarráð HSS hvetur ráðherra til að vinna hratt
Hjúkrunarráð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hvetur heilbrigðisráðherra til að vinna hratt með framkvæmdastjórn HSS að þeim málefnum sem brýnust eru fyrir öryggi og þjónustu við íbúa á svæðinu. Þetta kemur fram í ályktun ráðsins í kjölfar borgarafundar þann 9. febrúnar sl.
Brýnustu málin eru að styrkja stoðir heilsugæslunnar og tryggja að skurðstofa verði opin áfram eins og ráðherra lagði áherslu á í máli sínu á borgarafundinum.
„Skurðstofustarfsemi gegnir lykilhlutverki í hópslysa- og flugslysaáætlun Almannavarna á Suðurnesjum. Starfsfólk skurðstofu HSS er í fyrsta útkalli ef til flugslyss kemur á Keflavíkurflugvelli sem er aðal millilandaflugvöllur Íslendinga. Vandséð er hvernig tryggja megi eðlilegan viðbragðstíma neyðarteymis ef skurðstofu verður lokað.
Við fögnum því að ráðherra tók jákvætt í hugmyndir íbúa svæðisins um betri nýtingu á skurðstofum sem gæti jafnvel aukið tekjur stofnunarinnar og þar með styrkt stoðir hennar,“ segir í ályktun hjúkrunarráðs Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem þau Guðbjörg Sigurðardóttir, Bryndís Sævarsdóttir og Steina Þóra Ragnarsdóttir rita undir.