Hjúkrunarfræðingar krefjast kjarabóta
Félagar í Suðurnesjadeild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hafa sent frá sér ályktun vegna tveggja daga verkfalls hjúkrunarfræðinga F.Í.H. sem hófst í gær. Þar segir: „Okkur þykir leitt að þurfa að grípa til þess örþrifaráðs að leggja niður vinnu til að knýja fram samningaviðræður við ríkið. Leggja niður vinnu til þess að segja: „Hér erum við, við viljum ræða við ykkur og minna á að kjarasamningur okkar hefur verið laus frá 31. október 2000”. Krafa hjúkrunarfræðinga er skýr og hún er sú að kjör þeirra séu ávallt sambærileg við viðmiðunarstéttir þeirra. Það er ósk hjúkrunarfræðinga í Suðurnesjadeild F.Í.H. að samningar takist sem allra fyrst.“