Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hjördís og Geimsteinn fá Súluna
Miðvikudagur 24. nóvember 2004 kl. 01:29

Hjördís og Geimsteinn fá Súluna

Hjördís Árnadóttir og útgáfufyrirtækið Geimsteinn hlutu Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, fyrir framlag sitt til menningarmála í bænum.

Viðurkenningarnar voru veittar við hátíðlega athöfn í Duushúsum í kvöld, en við sama tækifæri afhenti Gunnar Oddsson, formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar, menningarstyrki ársins.

Styrkhafar í ár eru Kvennakór Suðurnesja, Nemendafélag FS, Rythma- og blúsfélag Reykjanesbæjar, Arnar Fells, Rúnar Júlíusson, Ísmedia, Frostrósir, Suð- suðvestur, auk fjögurra tónskálda sem sömdu tónlist sem var flutt á síðustu Ljósanótt.

Þá var einnig undirritaður samstarfsamningur milli Byggðasafns Reykjanesbæjar og Iðnaðarmannafélags Suðurnesja um iðnminjasýningu og varðveislu muna og gagna sem tengjast félaginu á liðnum árum.

Geimsteinn, sem er elsta starfandi útgáfufyrirtæki landsins, fær Súluna fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á svæðinu. Í hljóðveri Geimsteins, Upptökuheimilinu, hafa margir af bestu tónlistarmönnum Suðurnesja stigið sín fyrstu spor, auk þess sem margir af þekktustu listamönnum þjóðarinnar hafa hljóðritað diska sína þar. Þá hefur Geimsteinn gefið út á annað hundruð plötur og diska með a.m.k. 180 listamönnum frá stofnun fyrirtækisins árið 1976.
Geimsteinn er sannkallað fjölskyldufyrirtæki þar sem Rúnar Júlíusson rekur fyrirtækið ásamt konu sinni Maríu Baldursdóttur, sonum sínum tveimur og Þóri Baldurssyni, mági sínum.

Vel þótti hæfa að þakkarræða Rúnars og Maríu var fallegur söngur við píanóundirleik Baldurs, sonar þeirra.

Hjördís Árnadóttir hlýtur Súluna 2004 fyrir þróttmikið starf til að byggja upp menningarlíf bæjarins undanfarin tuttugu ár. Hjördís var lengi ein af driffjöðrum Leikfélags Keflavíkur og formaður þess í mörg ár. Átti hún sinn þátt í að Leikfélagið komst að lokum í eigin húsnæði á sínum tíma.
Þá hefur Hjördís gegnt formennsku í Félagi myndlistarmanna í Reykjanesbæ síðustu þrjú árin. Félagið hefur unnið mikið og gott starf til framdráttar myndlistinni og stofnaði, undir forystu Hjördísar, Myndlistaskóla Reykjanesbæjar sem starfræktur er í Svarta Pakkhúsinu að Hafnargötu. Þar rekur félagið einnig gallerý þar sem félagsmenn geta sýnt og selt verk sín.
Hjördís hefur verið með einkasýningar á Ljósanótt auk þess sem hún hefur tekið þátt í samsýningu félagsins.

Hjördís játti því í ræðu sinni að hún væri mikil hamhleypa í þessum efnum og þakkaði fjölskyldu sinni fyrir stuðninginn sem og hinum mörgu sem hafa unnið með henni í gegnum tíðina. Að ræðu sinni lokinni afhenti hún Björk Guðjónsdóttur, forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, að gjöf glæsilegt málverk eftir sjálfa sig.

Mynd 1: Súluhafar 2004, Hjördís Árnadóttir og fjölskyldan sem stendur að Geimsteini.

Mynd 2: Súluhafar og styrkþegar MÍT 2004 

VF-myndir/Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024