Hjón með kókaín í Leifsstöð
Íslensk hjón á fertugsaldri voru handtekin í Leifsstöð á mánudagskvöldið með þrjú hundruð grömm af kókaíni. Það var tollgæslan sem stoppaði hjónin við reglubundið eftirlit og fundust efnin í farangri þeirra. Hjónin, sem voru að koma frá Kaupmannahöfn, eiga þrjú börn og eru búsett í Reykjavík.
Konunni var sleppt eftir yfirheyrslu en karlmaðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 13. desember, segir í frétt Fréttatímans í dag sem mbl.is vitnar í.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum stendur rannsókn málsins enn yfir og er á viðkvæmu stigi. Eftir því sem Fréttatíminn kemst næst hefur hvorugt hjónanna komið áður við sögu lögreglunnar.