Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hjólamenn komnir heim!
Miðvikudagur 14. júní 2006 kl. 20:54

Hjólamenn komnir heim!

Þeir voru gegnblautir, hraktir, kaldir og þreyttir en brosandi út að eyrum, hjólareiðakapparnir sem komu til Reykjanesbæjar núna síðdegis og luku þar með hringferð sinni um landið undir kjörorðinu "Hjólað til góðs".

Ekki er hægt að segja að veðrið hafi leikið við þá félaga og fylgdarmenn þeirra mestan hlutan ferðarinnar, en í morgun hrepptu þeir aftakaveður undir Hafnarfjalli þar sem menn fuku hreinlega út í móa í veðurhamnum en vindhviðurnar náðu að slá uppí 35 m/s.
Ekki létu menn það aftra för, heldur spýttu í lófana og héldu ótrauðir áfram en við tók vatnsveður mikið svo ekki var þurr þráður á neinum og menn urðu nánast blautir "inn að beini".

Ferðinni lauk við slökkvistöðina í Keflavík þar sem hópur fólks, vina og velunnara, tóku fagnandi á móti þeim félögum.

Víkurfréttir mun greina nánar frá þessu á morgun í máli og myndum hér á vf.is.

Mynd: Árni bílstjóri og "pabbi" ferðarinnar átti skilið netta tolleringu frá þeim félögum í ferðalok. VF-mynd: JBO.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024