Hjólafólk þarf öruggari leið til Reykjavíkur
Mikil og brýn þörf er á að koma upp öruggri leið fyrir hjólreiðamenn milli höfuðborgarsvæðisins og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Þau mál hafa nokkuð verið skoðuð, m.a. hefur verið unnin úttekt og hönnun á lögn á slíkri samgönguleið. Í þeim hugmyndum er gert ráð fyrir að beina allri umferð hjólandi vegfarenda af Reykjanesbraut inn á stíga og vegi, m.a. yfir Vogastapa og eftir Vatnsleysuströnd.
„Þetta er dýrt verkefni, og ekki á færi fámenns sveitarfélags eins og Voga að fjármagna slíka framkvæmd. Mikilvægt er því að stuðla að aðkomu aðila eins og Vegagerðarinnar og Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til að hrinda þessu mikilvæga verkefni í framkvæmd,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum í pistli sem hann skrifar í vikulegt fréttabréf sitt í Vogum.
Hann segir einnig: „Við sem ökum Reykjanesbrautina að staðaldri sjáum nánast daglega fjöldann allan af hjólreiðamönnum, sem puða á vegöxlinni þar sem hröð bílaumferðin fer hjá. Það er nokkuð ljóst út frá umferðaröryggissjónarmiðum að hjólreiðar og hraðbrautarakstur er nokkuð sem ekki fer vel saman“.